Söfnunin í fullum gangi – styrktarkvöld í október

Söfnunin sem sett var af stað fyrir Ágústu Örnu er enn í gangi og hefur farið vel af stað. Ágústa lamaðist frá brjósti þegar hún féll niður um op á neyðarútgangi á þriðju hæð á Selfossi í síðustu viku.

Hún var á gjörgæslu í rúma viku eftir slysið, en var útskrifuð þaðan á þriðjudaginn og færð á heila- og taugadeild þar sem hún heldur endurhæfingunni áfram.

Fólk getur enn lagt inn á styrktarreikninginn sem var opnaður í nafni Ágústu með samþykki hennar og fjölskyldu hennar. Reikningsnúmerið er 0325-13-110203 og er kennitala hennar 270486-3209. Nú er einnig hægt að borga í gegnum síma með forritum sem bjóða upp á þann möguleika, númerið er 760-7576. Sem fyrr segir er Róbert Sverrisson, viðskiptafræðingur hjá Arion banka, fjármálastjóri söfnunarinnar.

Þá hefur hópur fólks hafið undirbúning að styrktarkvöldi og blindu uppboði þar sem allt söfnunarfé fer beint til Ágústu Örnu. Styrktarkvöldið verður fimmtudagskvöldið 6. október á Hótel Selfossi og munu Páll Óskar, Ari Eldjárn, Hreimur Örn, Á móti sól, Stuðlabandið, Karitas Harpa og fleiri koma fram.

Hér eru upplýsingar um styrktarkvöldið: https://www.facebook.com/events/148249495621116/

Fyrri greinFögnum með grænlenskum höfundi
Næsta greinLið HSK bikarmeistari eftir spennandi keppni