Hljómsveitin Slysh frá Hveragerði afhenti Sjóðnum góða styrk að upphæð 935 þúsund krónur síðastliðinn fimmtudag. Styrkfénu safnaði hljómsveitin með jólatónleikum sem hún hélt á Hótel Örk þann 16. desember síðastliðinn.
Allur ágóði af miðasölu tónleikanna rann til styrktar Sjóðnum góða en að auki styrktu Almar bakari, Dr. Leður, EB kerfi, Ficus, Kjörís og Hótel Örk tónleikana á einn eða annan hátt.
Þetta er annað árið í röð sem Slysh heldur jólatónleika til styrktar Sjóðnum góða. Í desember 2024 safnaði hljómsveitin 430 þúsund krónum og afhentu sjóðnum. Í ár var margmenni á Hótel Örk í Hveragerði og hljómsveitin kom fólki í jólaskap með aðstoð góðra gesta. Meðal þeirra sem komu fram voru Daði Freyr og Ágústa Eva. Einnig kom kór fram, hljómsveitin Litlasveit hitaði upp og Halli Daða var með uppistand og gegndi hlutverki kynnis.

Sjóðurinn góði var stofnaður 2008 í kjölfar bankahrunsins. Sjóðurinn er samstarfverkefni ýmissa kvenfélaga, Lionsklúbba, kirkjusókna í Árnessýsu, Félagþjónustunnar í Árborg, Hveragerði, Ölfusi og uppsveitum Árnessýslu og deilda Rauða krossins í Árnessýslu. Hlutverk Sjóðsins góða er að styrkja einstaklinga og fjölskyldur sem standa höllum fæti og eiga ekki fyrir nauðþurftum fyrir jólin, sem og á vormánuðum vegna ferminga.
Meðlimir Slysh eru á aldrinum 17–18 ára og hafa spilað saman í rúm þrjú ár. Á þeim tíma hafa þeir komið víða fram og gáfu út sína fyrstu EP-plötu, Birth, í ágúst 2025, sem er aðgengileg á öllum helstu streymisveitum og má finna hér að neðan. Nú er unnið að nýju efni og má búast við meiri tónlist frá þeim á árinu 2026.

