Söfnuðu hátt í milljón í nafni Ólafar

Frá afhendingunni í dag, (f.v.) Birna Sigurðardóttir, skólastjóri Hvolsskóla, Unnur Lilja Bjarnadóttir, systir Ólafar, systurnar Fanndís Lilja Lárusdóttir og Kara Kristín Lárusdóttir, dætur Ólafar og Lárus Viðar Stefánsson, eiginmaður Ólafar. Ljósmynd/Aðsend

Á morgun, þann 24. maí, hefði Ólöf Bjarnadóttir orðið 40 ára hefði hún lifað en hún lést sumarið 2019 eftir baráttu við krabbamein. Síðustu árin vann hún að mestu við íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku í Hvolskóla og hafði mikinn áhuga á frekari þróun þeirrar vinnu. Hún hafði líka mikinn áhuga á hreyfingu og var aðdáunarvert að fylgjast með henni í gegnum öll hennar veikindi hvað hreyfing spilaði stórt hlutverk.

Aðstandendur Ólafar ákváðu því í upphafi maímánaðar að hefja átakið „Söfnum mínútum fyrir Ólöfu“. Þar gat fólk skráð sig til leiks á Facebooksíðu söfnunarinnar og safnað mínútum í hreyfingu og heitið á söfnunina í leiðinni. Söfnunarféð myndi svo renna til íslenskukennslu fyrir börn í skólanum með annað móðurmál en íslensku.

Skemmst er frá því að segja að 121 tóku þátt og söfnuðu þau alls 83.377 hreyfingarmínútum. Sem gerir hvorki meira né minna 58 sólarhringa. Það söfnuðust 743.830 krónur inn á söfnunarreikninginn og Sláturfélag Suðurlands bætti við 1.000 krónum á hvern starfsmann fyrirtækisins, sem eru um 160 talsins. Alls söfnuðust því 903.830 krónur sem Hvolsskóli fékk afhentar á skólaslitunum í dag við hátíðlega athöfn.

Unnur Lilja Bjarnadóttir, systir Ólafar, er ein af þeim sem standa að söfnunni og segir hún að ætlunin með þessu átaki hafi fyrst og fremst að halda nafni Ólafar á lofti í afmælismánuðinum hennar og kannski safna nokkrum krónum fyrir íslenskukennslu fyrir nýbúa. Hún segir að þeim hafi ekki órað fyrir þeim viðbrögðum sem átakið og söfnunin hefur fengið og vill koma innilegum þökkum á framfæri til allra þeirra einstaklinga tóku þátt í átakinu ásamt SS sem lagði söfnunni lið.

„Samfélagið hér á Hvolsvelli hefur svo sannarlega haldið þétt utan um okkur fjölskylduna, bæði í veikindum Ólafar og sorginni sem andláti hennar fylgdi. Við erum ævinlega þakklát fyrir þá samstöðu sem við höfum fundið,“ segir Unnur Lilja.

Eftir Reykjavíkurmaraþon. Fyrir aftan eru (f.v.) Ólöf Bjarnadóttir, Lárus Viðar Stefánsson, Eygló Hansdóttir, Bragi Bjarnason og Valdís Bjarnadóttir og fyrir framan eru Unnur Lilja Bjarnadóttir og Stefán Friðrik Friðriksson. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSigursveinn setti HSK met í Kaupmannahöfn
Næsta greinEndurmenntun mikilvægur liður í starfsþróun