Alls söfnuðust 420 þúsund krónur til styrktar SÁÁ á góðgerðarviku Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem fram fór í síðustu viku.
Á hverju ári heldur NFSU góðgerðarviku þar sem nemendur skora á hvern annan og sömuleiðis á kennarana og safna fjármunum fyrir gott málefni. Að þessu sinni varð SÁÁ fyrir valinu en SÁÁ eru samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda.
Alla síðustu viku stóðu nemendur fyrir fjölbreyttum viðburðum og áskorunum. Sem dæmi má nefna tískusýningu kennara, hjólað var í skólann frá Hveragerði, formaður nemendaráðs var rjómaður, skriðið var í skólann, kennarar voru settir í trúðabúning, eyru götuð og margt fleira.
Sem fyrr segir söfnuðust 420.000 kr. sem samtökin fengu afhent síðastliðinn föstudag. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá góðgerðarvikunni.






