Söfnuðu 1,1 milljón króna á góðgerðardögum

Nemendur Sunnulækjaskóla á Selfossi afhentu Krabbameinsfélagi Árnessýslu í morgun ágóðann af góðgerðardögum sem haldnir voru í skólanum í síðustu viku.

Nemendurnir notuðu tvo daga til þess að búa til ýmiskonar jólaskraut sem síðan var selt á góðgerðarmarkaði í skólanum síðastliðinn fimmtudag. Markaðurinn var mjög vel sóttur og safnaðist dágóð fjárhæð, eða alls 1.111.652 krónur.

Í morgun var upphæðin afhent á jólasöngstund í skólanum og tók Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu, á móti peningagjöfinni, sem kemur svo sannarlega að góðum notum.

Á myndinni sem fylgir fréttinni eru (f.v.) Margrét Steinunn Guðjónsdóttir, Tanja Kolbrún Fannarsdóttir, Svanhildur Ólafsdóttir, Elvar Elí Hallgrímsson, Anna Dóra Ágústsdóttir, Sigríður H. Guðjónsdóttir og Unnur Björk Hjaltadóttir.

Fyrri grein„Þetta var frábært í kvöld“
Næsta greinHvar er Jónas? – Á Hvolsvelli!