Söfnuðu til stuðnings Filippseyingum

Síðasta mánuðinn hafa nemendur Kirkjubæjarskóla á Síðu safnað peningum til styrktar fórnarlömbum náttúruhamfaranna á Filippseyjum.

Söfnunin fór fram með fjölbreyttum hætti, m.a. lágu söfnunarbaukar frammi við allar samkomur sem voru á vegum nemendafélagsins, nemendur í myndlistarvali bjuggu til jólakort sem síðan voru seld og nemendafélagið lét allan ágóða af föndur- og laufabrauðsdegi renna til söfnunarinnar.

Í gær afhenti talsmaður nemendafélagsins, Katla Björg Ómarsdóttir, fulltrúa Rauða Krossins, Guðveigu Hrólfsdóttur, söfnunarféð, alls 167 þúsund krónur. Það er von nemendanna að þessir peningar komi að góðum notum hjá þeim sem þarfnast þeirra.