Söfnuðu pökkum fyrir bágstödd börn

Starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi kom saman á aðventustund í dag og afhenti Selfosskirkju jólapakka fyrir bágstödd börn á Suðurlandi.

Þetta er í fyrsta skipti sem svona pakkasöfnun fer fram en það voru þær Kolbrún Ásta Jónsdóttir og Else Nielsen sem áttu hugmyndina og fengu þær Fjólu Ingimundardóttur í lið með sér.

Starfsfólkið hittist síðan í kjallara HSu í dag og átti saman notalega aðventustund. Robert Darling og klarinettuleikararir Bergrún og Arna Dögg úr Þorlákshöfn spiluðu jólalög og allir sungu saman.

Þá flutti sr. Óskar H. Óskarsson, prestur á Selfossi, hugvekju og þakkaði um leið fyrir þann hlýja hug sem sýndur er með pakkasöfnuninni. U.þ.b. 50 pakkar lentu undir jólatrénu á HSu og mun Selfosskirkja koma þeim áfram til þeirra sem minna mega sín.