Söfnuðu 810 þúsund krónum til góðgerðarmála

Það var hátíðleg stund í morgun í Grunnskólanum í Hveragerði. Tilefnið var opinn gangasöngur og afhending á peningaupphæð sem safnaðist á góðgerðardaginn á dögunum.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson heiðraði skólann með nærveru sinni og auk þess kom fulltrúi frá Samtökum krabbameinssjúkra barna, Gréta Ingþórsdóttir, og tók við upphæðinni sem var samtals 810.000 kr.

Það voru formaður nemendaráðs, Guðrún Rós Guðmundsdóttir, og yngsti nemandi skólans, Elín Thelma Jónsdóttir, sem afhentu SKB upphæðina fyrir hönd skólans.

Mikill fjöldi fólks mætti á þessa stund og undir lokin var tekið hressilega undir jólalögin sem sungin voru, eins og sjá má hér að neðan í myndbandinu frá Hveragerði Myndabæ.

Fyrri greinSteinn bauð lægst í stofnlagnirnar
Næsta greinHamar upp fyrir FSu