Söfnuðu 1,1 milljón króna á góðgerðardögum

Nemendur Sunnulækjaskóla á Selfossi afhentu Krabbameinsfélagi Árnessýslu í morgun ágóðann af góðgerðardögum sem haldnir voru í skólanum í síðustu viku.

Nemendurnir notuðu tvo daga til þess að búa til ýmiskonar jólaskraut sem síðan var selt á góðgerðarmarkaði í skólanum síðastliðinn fimmtudag. Markaðurinn var mjög vel sóttur og safnaðist dágóð fjárhæð, eða alls 1.111.652 krónur.

Í morgun var upphæðin afhent á jólasöngstund í skólanum og tók Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu, á móti peningagjöfinni, sem kemur svo sannarlega að góðum notum.

Á myndinni sem fylgir fréttinni eru (f.v.) Margrét Steinunn Guðjónsdóttir, Tanja Kolbrún Fannarsdóttir, Svanhildur Ólafsdóttir, Elvar Elí Hallgrímsson, Anna Dóra Ágústsdóttir, Sigríður H. Guðjónsdóttir og Unnur Björk Hjaltadóttir.