Söngur, dans og sápukúlur í Selfosskirkju

„Þetta er frábært námskeið sem ég get mælt með fyrir alla foreldra, sem eru með ung börn, hér breytist kirkjan í tónlistar og dansstað þar sem eru notaðar sápukúlur og fleira skemmtilegt til að ná athygli barnanna.

Ég og mömmurnar í hópnum erum í skýjunum með námskeiðið og Guðnýju Einarsdóttur, stjórnanda þess,“ segir Tinna Soffía Traustadóttir, sem er ein af mömmunum á tónlistarnámskeiði fyrir börn á fyrsta ári og foreldra þeirra í Selfosskirkju. Námskeiðið kallast „Krílasálmar“ og er fyrir börn, eins árs og yngri.

Sungnir eru sálmar og lög kirkjunnar, þekkt barnalög og kvæði, leikið og dansað, hlustað og notið samverunnar í notalegu umhverfi kirkjunnar.

Á námskeiðinu læra foreldrar leiðir til að nota söng og tónlist í daglegu uppeldi og umönnun barna sinna. Námskeið er í átta skipti en hægt er að koma inn í það hvenær sem er á tímabilinu.

Fyrri greinAfburðanautið kemur frá Skeiðháholti
Næsta greinHamar tapaði heima