Söðlaði um og stofnaði fasteignasölu

Fyrr á þessu ári voru tíu ár liðin frá því Soffía Theodórsdóttir tók stökkið og stofnaði sína eigin fasteignasölu í Hveragerði, Byr fasteignasölu, sem starfrækt er við aðalgötuna í bænum, að Austurmörk 4.

„Ég stóð þarna á ákveðnum tímamótum og ákvað að drífa mig í fasteignasalanám og að því loknu kom ekkert annað til greina en að opnafasteignasölu,“segir Soffía. Hún býr í Hveragerði og því var nærtækast að opna söluna þar. „Þetta var fyrsta eiginlega fasteignasalan í Hveragerði og greinilega þörf á slíku fyrirtæki hér,“ bætir hún við.

Soffía segist strax hafa fengið meiri og betri viðbrögð en hún hafði reiknað með. „Fljótlega komu Íslenskir aðalverktakar til mín og óskuðu eftir því að ég myndi selja fyrir þá þjónustuíbúðir við Heilsustofnunina í Hveragerði sem þeir voru að byggja á þessum tíma,“ segir hún. Þá fékk hún einnig það verkefni að selja 17 íbúða fjölbýlishús í Hveragerði sem verktakinn Sveinbjörn Sigurðsson reisti þar. „Þannig að það var strax mikið að gera,“ segir Soffía.

En undanfarinn áratugur hefur verið kaflaskiptur í fasteignaviðskiptum hér á landi og Hveragerði engin undantekning. „Árin fyrir hrun var mikil uppsveifla en svo kom mikil dýfa,“ segir hún.

En alltaf opnast einhver nýr gluggi þegar annar lokast og Soffía opnaði á þeim tíma leigumiðlun fasteigna, auk þess sem hún tók að sér í auknum mæli verðmat fasteigna og annan frágang í tengslum við fasteignaviðskipti. Hún segir að fasteignamarkaður sé nú að taka við sér.

„Já, þetta hefur snúist við enn á ný, það hefur verið mikið að gera,“ segir Soffía. Auk þess að selja húsnæði í Hveragerði var hún að ljúka sölu á 49 íbúða blokk í Reykjavík en það verkefni hefur hún haft undir höndum frá árinu 2011.

Soffía segist bjartsýn á fasteignasölu í héraðinu. „Já, þetta svæði, Hveragerði og Árborg, er á uppleið, enda staðsetningin góð.“

Fyrri greinÖkumenn víða í vandræðum
Næsta greinLeikskólagjöld lækka í Skaftárhreppi