„Snýst um svo miklu meira en bara að safna nammi“

Hrekkjavakan hefur verið haldin hátíðleg á Hellu undanfarin ár og leggja margir mikinn metnað í skreytingarnar. Ljósmynd/Ösp Viðarsdóttir

Hrekkjavakan verður haldin hátíðleg á Hellu í ár eins og undanfarin ár. Sú nýbreytni verður í ár að auk þess að ganga hús úr húsi þá gefst fólki kostur á að vera með „Gott í skotti“ sem auðveldar fólki í dreifbýlinu að vera með í hrekkjavökugleðinni.

„Í fyrra benti kona í dreifbýlinu mér á þennan snúning á grikk eða gott. Erlendis er víst víða tekið til þess ráðs að fólk innan samfélaga safnist saman á stóru bílastæði og bjóði upp á Trunk-or-Treat eða „Gott í skotti“ í staðinn fyrir að ganga hús úr húsi. Þetta er að vissu leyti öruggara því þá eru engin börn að hlaupa yfir götur í myrkrinu. Svo gefur þetta fólki í dreifbýlinu tækifæri á að vera með,“ segir Ösp Viðarsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings ytra, í samtali við sunnlenska.is.

Frá hrekkjavökunni á Hellu. Ljósmynd/Ösp Viðarsdóttir

Bílaskreytingarnar valkvæðar
Til að vera með í „Gott í skotti“ þá mætir fólk einfaldlega á bílnum sínum, skreytir hann að vild og býður upp á gotterí úr skottinu í staðinn fyrir að afhenda það í dyragættinni. „Við erum að prófa að bjóða þennan kost í fyrsta skipti í ár og erum alveg óviss með þátttökuna en við erum spennt að sjá hvort einhver mæti á staðinn,“ segir Ösp en fyrir þá sem ekki vita þá er hrekkjavakan 31. október.

 „Við bjóðum þeim sem vilja að stilla bílunum sínum upp á bílaplaninu á bak við íþróttahúsið á Hellu, við hliðina á sparkvellinum. Þar hefur fólk síðan frjálsar hendur hvað varðar skreytingar og veitingar. Við óskuðum eftir því á okkar miðlum að fólk léti vita ef það ætlaði að mæta með „Gott í skotti“ en ennþá hefur enginn tilkynnt sig.“ 

„Ef einhver er með spurningar er alltaf hægt að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins í síma 4887000 eða senda mér tölvupóst á osp@ry.is. Annars erum við ekki mikið að skipta okkur af því hvað fólk gerir eða býður upp á. Búum bara til þennan vettvang og kort sem fólk getur skráð sig á og svo sjá okkar frábæru íbúar um að skapa stemninguna og gleðina sem þessu fylgir.“

Ljósmynd/Ösp Viðarsdóttir

Eflir samtakamátt samfélagsins
Hellubúar hafa haldið hátíðlega upp á hrekkjavökuna síðastliðin ár og taka sífellt fleiri þátt í hrekkjavökugleðinni. „Síðastliðin ár hefur verið lagt meira í að skipuleggja röltið með því að búa til kort sem fólk getur skráð sitt hús inn á, hvetja fólk til að skreyta og búa til smá stemningu.“

 „Þátttaka hefur verið góð síðustu ár. Í fyrra var 21 hús skráð á kortið svo það var hægt að rölta um allt þorp að sníkja nammi og hitta mann og annan. Þetta snýst um svo miklu meira en bara að safna nammi. Þetta er líka göngutúr, samvera og tækifæri til að hitta nágranna sína. Svona viðburðir efla samtakamátt samfélagsins, lýsa upp skammdegið og stytta bið barnanna fram að jólum.“

Ljósmynd/Ösp Viðarsdóttir

Gaman að sjá þorpið lýsast upp
Ösp segir að Hellubúar hafi verið duglegir að skreyta húsin sín. „Það er mjög gaman að sjá þorpið lýsast upp fyrir hrekkjavökuna. Margir skreyta smá og sumir mikið sem er mjög gaman. Graskerin eru algeng, seríur, beinagrindur, kóngulóarvefir og fleira.“

 „Mig langar að hvetja þau sem hafa áhuga til að taka þátt. Upplýsingar er að finna á heimasíðu Rangárþings ytra, ry.is, og á Facebook-síðu sveitarfélagsins. Allir geta skráð sig sjálfir á kortið eða beðið um að það verði gert. Einnig langar mig að minna ökumenn á að fara sérstaklega varlega í umferðinni þar sem margir litlir fætur verða á ferð á milli kl. 17 og 19,“ segir Ösp að lokum.

Ljósmynd/Ösp Viðarsdóttir
Fyrri greinKrónan býr sig ekki til sjálf
Næsta greinGrunuðum brennuvargi sleppt úr haldi