Icelandair hóf í gær áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Lent var á Höfn klukkan 11:30 í gær og fengu farþegar og áhöfn góðar móttökur frá fulltrúm úr bæjarstjórn Hornafjarðar.
Flogið verður fimm sinnum í viku á 37 sæta flugvélum af tegundinni DHC-8-200. Höfn er fjórði áfangastaður Icelandair innanlands en fyrir flýgur félagið til Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða.
„Það hefur mjög mikla þýðingu fyrir okkur að Icelandair taki nú við áætlunarfluginu á milli Reykjavíkur og Hornafjarðar. Þetta snýst ekki bara um þægindi heldur um grunnþjónustu fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu. Reglulegar og traustar samgöngur við höfuðborgarsvæðið skipta máli fyrir aðgengi okkar að heilbrigðisþjónustu, menntun og opinberri þjónustu ásamt því að þetta er nauðsynlegt fyrir okkar öfluga atvinnulíf,“ sagði Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar, í samtali við sunnlenska.is.
„Þá er þetta líka tækifæri fyrir ferðaþjónustuna, að geta boðið Höfn sem áfangastað inn í alþjóðlegt sölukerfi Icelandair. Við erum í mikilli uppbyggingu og þetta styrkir stöðu svæðisins enn frekar. Við fögnum því að fá stærri vélar og meira sætaframboð og horfum jákvæð fram á veginn,“ bætti Sigurjón við.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir sömuleiðis mjög ánægjulegt að Höfn bætist við leiðakerfi félagsins innanlands.
„Flugleiðin er mikilvæg fyrir íbúa á Suðausturlandi en einnig teljum við tækifæri fólgin í því að fá þennan vinsæla áfangastað ferðamanna inn í alþjóðlegt sölu- og dreifikerfi okkar og gera hann aðgengilegan viðskiptavinum í Evrópu og Norður-Ameríku. Jafnframt munu farþegar til og frá Höfn nú geta nýtt sér öfluga þjónustu Icelandair, þar með talið stafræna þjónustu og vildarklúbb,“ segir Bogi.


