„Snýst um að gera eitthvað öðruvísi og skemmtilegt“

Berglind Björgvinsdóttir, eigandi Skrúfunnar. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Skrúfan á Eyrarbakka er sannkölluð grósku- og sköpunarmiðstöð. Þangað kemur fólk til að skapa, gleyma sér í flæðinu og gleðinni sem felst í því að leyfa sköpunarkraftinum að njóta sín.

Þangað kemur fólk líka til að læra eitthvað nýtt en í Skrúfunni er boðið upp á einstaklega fjölbreytt námskeið fyrir fólk á öllum aldri – hvort sem það eru ungabörn eða eldri borgarar.

Blaðamaður sunnlenska.is hitti Berglindi Björgvinsdóttur, eiganda Skrúfunnar, í suðvestan stormi síðastliðinn þriðjudag á Eyrarbakka, í húsi Skrúfunnar að Hafnarbrú 3. Berglind tekur brosandi á móti blaðamanni ásamt hundinum Brúnó og syni sínum Hinriki Þór sem fékk að vera með mömmu sinni í vinnunni vegna verkfallsaðgerða BSRB félaga.

Skrúfan var stofnuð af Sigrúnu Þuríði Runólfsdóttur – sem er vinkona Berglindar – árið 2020 og opnaði Skrúfan í núverandi húsnæði fyrir ári síðan. Í upphafi þessa árs tók Berglind svo við Skrúfunni og sér hún nú ein um reksturinn.

„Þetta snýst um að skapa og gera eitthvað öðruvísi og skemmtilegt,“ segir Berglind sem er líka listakona og málar undir nafninu BB Art. „Það var ein ástæðan fyrir að ég ákvað að stækka svolítið við Skrúfuna og setja upp sýningarsal, þannig að það verði hægt að setja upp sýningar hér. Það er mikil vöntun á sýningarrými á Árborgarsvæðinu. Ég hef sjálf ekki getað haldið sýningu nema hér í Skrúfunni en sú sýning var í menningarmánuðinum október síðastliðnum.“

Berglind ásamt syni sínum Hinriki Þór og hundinum Brúnó. „Hamingjan býr í augnablikinu“ eru einkennisorð Skrúfunnar. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Öll skilningarvitin virkjuð
Námskeiðin sem hafa verið haldin í Skrúfunni eru eins fjölbreytt og þau eru mörg. „Það er eiginlega of langur listi til að telja þau öll upp en sem dæmi má nefna höfum við haldið prjónanámskeið, japönskunámskeið, leiklistarnámskeið, myndlistarnámskeið, lækningamátt túnfífilsins, leirnámskeið, konfektgerð, kertagerð, sápugerð, fléttunámskeið, kransagerð, bollakökuskreytingarsmiðju, macrame, pappastjörnur, laufabrauðsgerð og svo miklu meira,“ segir Berglind.

Í Skrúfunni fá öll skilningarvitin örvun en þar er líka hægt að fá gómsætan ís frá Skúbbís Reykjavík. „Það er hægt að fá sér kúluís í vöffluformi eða boxi og framtíðarplanið er að breyta öllu eldhúsinu í alvöru ísbúð – við erum komin með leyfi frá Skúbb fyrir því. Það er enginn formlegur opnunartími í Skrúfunni en það er alltaf hægt að fá ís þegar það eru námskeið í gangi en það er mikið af námskeiðum seinni partinn,“ segir Berglind og bætir því við að hún auglýsi það líka sérstaklega þegar hún er með ísbúðina opna.

Draumurinn að þetta verði frístund
Í sumar verða margvísleg námskeið í boði fyrir börn í Skrúfunni. „Það verður leiklistarnámskeið, myndlistarnámskeið og svo er líka hugmyndasmiðja þar sem unnið er úr endurnýttum efnivið. Í Árborg er svolítið mikið bara íþróttir og tónlist. Það hefur ekkert mikið annað verið í boði hingað til. Reiðmennska hefur aðeins verið að koma inn en mér fannst vanta eitthvað meira.“

„Ég var sjálf alltaf í Myndlistarskólanum í Kópavogi sem barn og mér fannst vanta eitthvað sambærilegt hér á svæðinu. Auðvitað væri draumastaðan að það væri hægt að vera í frístund – að þetta sé svona tómstund þar sem er verið að æfa myndlist og leiklist. Það er svona framtíðarstefnan.“

Barnvæni markaðurinn sló í gegn
Fyrir skömmu var barnvæni markaðurinn haldinn í Skrúfunni, sem tókst með eindæmum vel. „Forseti Íslands kom og honum fannst þetta svo frábært að hann spurði hvort þetta yrði ekki örugglega árlegt – og það voru fleiri sem spurðu að því sama. Þegar ég var að undirbúa daginn þá vann ég svo mikið að einhver spurði mig hvort ég ætti von á forsetanum. Þannig að ég hugsaði með mér að ég ætti kannski bara að bjóða honum og gerði það. Og hann mætti,“ segir Berglind og hlær.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ásamt börnum Berglindar, þeim Emilíu Ósk Friðriksdóttur og Hinriki Þór Friðrikssyni. Ljósmynd/aðsend

Á barnvæna markaðnum var í boði að styrkja alls konar góðgerðarmál. „Þetta var þannig að sjö ára dóttir mín elskar Skúbbísinn og ég var að útskýra fyrir henni að það þyrfti að borga fyrir ísinn. Hún bað mig um að bjóða fólki svo að hún gæti selt dótið sitt og föndur sem hún var búin að föndra alveg á fullu. Ég hugsaði að hún væri búin að gera svo mikið að ég yrði að leyfa henni að gera þetta. Ég ræddi þetta við hana og hún var tilbúin að leyfa vinkonum sínum og fleiri að vera með. Þannig að ég auglýsti þetta og það voru bara frábærir aðilar sem komu og tóku þátt. Þetta var alveg geggjað.“

Fjölmargir lögðu leið sína á barnvæna markaðinn og þótti hann heppnast svo vel að stefnt er á að þetta verði árlegur viðburður hér eftir. Ljósmynd/aðsend

Berglind segir að sköpunargleði sé bara hugsanamynstur til að finna lausn á einhverjum vanda. „Það var svo mikið sem dóttir mín var að gera – hana vantaði bara pening fyrir ís og hún ákvað að selja eitthvað, búa til eitthvað,“ segir Berglind og hlær.

Berglind segir að börnin hennar séu mikið með henni í Skrúfunni. „Þau eru alltaf að föndra. Mér finnst það svo æðislegt því að það er enginn skjátími og þeim finnst þetta svo miklu skemmtilegra – búa til sverð til að skylmast með eða bara eitthvað.“

Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Berglind Björgvinsdóttir og Fjóla Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar, á barnavæna markaðinum. Ljósmynd/aðsend

Ekki bara bíó og sund
Berglind segir að fjölskylda og vinir hafi allir tekið Skrúfunni mjög vel. „Vinkonuhópurinn hefur verið að hittast um hérna um helgar með öll börnin okkar og föndra. Þetta er allt annað en að fara í sund eða í bíó með börnin. Þetta er svo mikill gæðatími – eitthvað sem kannski vantar. Fólk situr kannski heima með barninu sínu og veit ekkert hvað á að gera. Það hugsar kannski „eigum við að lita?“, það er svo oft sótt í það, en hér verið að föndra alls konar. Á mæðradaginn var opið hús, allar mæður fengu frían ís og börn gátu komið og föndrað blómvönd eða blóm handa mæðrum sínum úr endurnýttum efnivið.“

Berglind vonast til þess að í framtíðinni verði Skrúfan opin allan daginn, ekki ólíkt lista- og menningarhúsinu Höfuðstöðinni í Reykjavík og að það verði jafnvel líka kaffihús á staðnum.

Hinrik Þór var á fullu að búa til geggjaða bílabraut þegar blaðamann sunnlenska.is bar að garði. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Fá útrás fyrir tilfinningar með því að skapa
Berglind hefur einnig verið að taka á móti alls konar hópum í Skrúfunni. „Ég hef til dæmis tekið á móti erlendum ferðamönnum og farið með þá niður í fjöru. Við höfum tínt skeljar og steina og komið svo hingað og búið til kerti. Birta starfsendurhæfingarstöð kom líka nýlega hingað. Ég var með smá fyrirlestur um sköpunargleði og svo vorum við með þrjár stöðvar að skapa eitthvað mismunandi. Það hjálpar svo mikið að skapa – fá útrás fyrir tilfinningar með því að skapa eitthvað – með því að mála til dæmis eða teikna.“

„Ég sjálf lenti svolítið á vegg andlega í lífinu og listin mín var mín leið til að vinna mig út úr því. Það hefur hjálpað mér rosa mikið. Fyrstu myndirnar voru svolítið svartar en núna eru þær orðnar bjartari og glaðlegri. Ég hef selt mjög mikið af listaverkum og það hefur gengið mjög vel og ég er mjög þakklát fyrir það því að þetta voru ekki bara vinir og vandamenn sem keyptu verk af mér.“

„Ég hvet fólk til að fylgjast vel með komandi námskeiðum á Facebook-síðu Skrúfunnar og líka að koma á námskeiðin og nýta sér þjónustu Skrúfunnar til þess að hún geti haldið áfram að dafna og ég geti haldið áfram að bjóða upp á fleiri námskeið,“ segir Berglind að lokum.

Fyrri greinUmferðaröryggi stóreflt!
Næsta greinKlippt á borða á nýja Suðurlandsveginum