Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu í Þorlákshöfn voru kallaðir að fiskeldisstöð við Laxabraut í Þorlákshöfn í kvöld þar sem kviknað hafði í byggingarefni á milli húsa.
„Það kviknaði þarna í plastefni, líklega út frá suðuvinnu fyrr í dag og það hefur eitthvað kraumað í þessu. Okkar menn voru snöggir að slökkva, það varð enginn stór eldur en þegar svona plastefni brenna þá verður mikill, svartur reykur,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um reykinn kl. 18:06 og voru slökkviliðsmenn frá BÁ í Þorlákshöfn fljótir á vettvang.
