Snjóruðningsbíll eyðilagðist í eldi

Gríðarlega mikinn og kolsvartan reyk lagði frá bílnum þegar slökkviliðið kom á vettvang. Ljósmynd/Gunnlaugur B. Ólafsson

Snjóruðningsbíll á leið upp Kambana gjöreyðilagðist þegar eldur kom upp í bílnum um klukkan hálffimm í dag.

„Þetta er vörubíll með snjótönn og tilheyrandi búnaði. Hann varð alelda og mínir menn eru að ljúka slökkvistarfi í þessum töluðu orðum. Þetta er stórt tæki og það verður mikill eldur í þessu og svartur reykur,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is um klukkan 17.

Ekki urðu slys á fólki en bílstjórinn náði að forða sér út úr bílnum í tæka tíð. Suðurlandsvegur er lokaður vegna þessa og segir Pétur að talsverðar umferðartafir hafi verið á vettvangi. Hreinsunarstarf mun væntanlega taka einhvern tíma þar sem fjarlægja þarf bílinn af staðnum.

Bíllinn er gjörónýtur eftir brunann. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Frá vettvangi í Kömbunum í dag. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Slökkviliðið notaði froðu til þess að ráða niðurlögum eldsins. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Bíllinn brann beint fyrir framan vefmyndavél Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Vegagerðin
Fyrri greinAðgerðum hætt við Þingvallavatn
Næsta greinSkellur í fyrsta leik