Snjómokstursbílar búnir vængjum

Í vetur verða snjómoksturstæki búin hliðarvængjum tekin í notkun hjá verktökum Vegagerðinnar á suðvesturhorninu og einnig mun verða hafin samhliðamokstur tveggja bíla á 2+1 og 2+2 vegum.

Hliðarvængir eru nýlunda hér á landi en ættu ekki að gera meiri kröfur til vegfarenda en hefðbundna varkárni. Iðulega er kóf þó mikið og bera að varast framúrakstur og aldrei ætti að reyna slíkt þegar samhliða snjómokstur tveggja tækja er í gangi. Með þessu tekur snjóhreinsun minni tíma og ekki verða til snjórastir á akreinum.

Í frétt frá Vegagerðinni segir að Vegagerðin vinni stöðugt að því að bæta þjónustu við vegfarendur og þar er vetrarþjónustan engin undantekning. Síðustu misserin hefur þróun í snjómoksturs- og hálkuvarnabúnaði ásamt bættri aðferðafræði skilað bæði hraðvirkari og hagkvæmari þjónustu og dregið úr neikvæðum áhrifum vetrarveðráttu á umferð og umferðaröryggi. Verkefni vetrarþjónustunnar spanna allt frá hálkuvörnum með salti á umferðarmestu vegunum á höfuðborgarsvæðinu til umferðarstýringar á heiðarvegum þegar óveður verða.

Á stofnleiðum á höfuðborgarsvæðinu og helstu leiðum út frá því veitir Vegagerðin sólarhringsþjónustu við svokallaðar forvirkar hálkuvarnir. Þetta felur í sér að vöktun og viðbúnaður miðast við að hálkuverja vegi áður en skilyrði til hálkumyndunar verða, og jafnframt að stytta eins og kostur er þann tíma sem snjókoma hefur áhrif á umferðina.

Snjómokstursbílar með hliðarvæng
Nú í haust munu verktakar Vegagerðarinnar á suðvesturhorninu taka í notkun svokallaða hliðarvængi á nokkrum snjómokstursbílum. Um er að ræða mokstursbúnað sem hægt er að spenna út frá hægri hlið bílsins og auka þannig vinnslubreidd við snjómokstur til muna. Þegar búnaðurinn er ekki í notkun leggst hann upp að hlið bílsins.

Á vegum þar sem tvær eða fleiri akreinar liggja í sömu akstursstefnu verður mokstur jafnframt í mörgum tilfellum unninn af tveimur snjómokstursbílum samtímis, en bílarnir fylgjast þá að og hreinsa alla akbrautina í einni ferð. Slíkur samhliðaakstur mokstursbíla hefur lengi verið tíðkaður á stofnbrautum í nágrannalöndum okkar. Jafnframt eru hliðarvængir algengir, en þeir nýtast vel bæði á fjölakreina vegum og á vegum með eina akrein í hvora átt. Á síðarnefndu vegunum getur einn mokstursbíll með hliðarvæng hreinsað allan veginn í fulla breidd í einni ferð fram og tilbaka, andstætt því að þurfa að aka tvisvar í hvora átt þegar ekki er notaður hliðarvængur.

Með notkun hliðarvængja og samhliðamoksturs tveggja bíla geta vegfarendur vænst þess að snjóhreinsun taki styttri tíma og að umferð verði minni hætta búin vegna snjórasta á akbraut í samanburði við hreinsun með einum bíl sem eingöngu er búinn snjótönn að framan.

Vegagerðin á von á því að þessum búnaði verði vel tekið af vegfarendum og að nú sem endra nær verði góð samvinna og gagnkvæm tillitsemi ríkjandi milli vegfarenda og starfsmanna vetrarþjónustunnar.

Fyrri greinSamstaða um nauðsyn smærri og hagkvæmari íbúða
Næsta greinHrafnhildur ráðin tilraunastjóri