Snjómokstur 40 milljónir fram úr áætlun

Kostnaður við snjómokstur síðustu tvo mánuði hefur reynst gríðarlegur á Suðurlandi.

Að sögn Svans G. Bjarnasonar, umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Suðurlandi, nam kostnaður við snjómokstur 50 milljónum króna í janúar og eru þó ekki allir reikningar komnir inn. Kostnaður við snjómokstur í desember var 70 milljónir króna og er ljóst að síðasta ár fór verulega fram úr fjárhagsáætlun.

Gert hafði verið ráð fyrir 165 milljónum króna í snjómokstur á öllu Suðurlandi á síðasta ári og taldi Svanur að kostnaðurinn hafi farið 40 milljónum fram úr áætlunum.