Snjóbíllinn Gusi afhentur Skógasafni

Signý Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar Jónassonar, ahendir Andra Guðmundssyni, forstöðumanni Skógasafns, bílinn. Ljósmynd/Aðsend

Í dag afhenti fjölskylda Guðmundar Jónassonar Skógasafni snjóbílinn Gusa til varðveislu. Gusi á sér langa og merkilega sögu, hvort sem það snýr að leiðöngrum til að kanna hálendi Íslands eða fræknum björgunarafrekum.

Guðmundur Jónasson keypti snjóbílinn Gusa árið 1952 þegar höft voru á viðskiptum erlendis frá. Fyrstu verkefnin tengdust neyðaraðstoð við bændur á Austurlandi vegna mikils harðæris sem þá ríkti. Gusi var vel búinn, með einangruðu farþegarými, miðstöð og gott pláss fyrir þá 12 farþega sem leyfi var fyrir að sitja aftan í snjóbílnum. Guðmundur fékk undanþágu til að setja talstöð í Gusa en þær voru á þeim tíma aðeins leiðar í siglingar. Til viðbótar setti hann áttavita og hæðarmæli úr flugvél og vegmæli sem festur var á hjól sem dregið var eftir snjóbílnum í jöklaferðum. Þannig var hægt að staðetja sig, sem þótti merkilegt á þessum tíma. Með þessum viðbótum aðlagðist snjóbíllinn vel að íslenskum aðstæðum. Vegna verkvits hugsjónamannsins Guðmundar Jónasssonar varð Gusi mjög
fljótt vinsæll í krefjandi háfjalla-og jöklaverkefni.

Þrátt fyrir aldur er Gusi enn öflugur. Hann gat náð 60 kílómetra hraða á klukkustund en algengasti hraði á jöklum var um 25-30 kílómetrar á klukkustund. Og það getur hann enn. Sem dæmi um afrek var Gusi mikið notaður í jöklarannsóknarleiðöngrum í upphafi Jöklarannsóknafélags Íslands.

„Saga Gusa er merkileg í samgöngusögu Íslendinga. Við vitum hvað snjóbílinn var Guðmundi Jónassyni kær og það er mikill heiður að varðveita Gusa hjá okkur í Samgöngusafninu,“ sagði Andri Guðmundsson, forstöðumaður Skógasafns, þegar hann veitti bílnum viðtöku.

Á Samgöngusafninu í Skógum munu gestir geta litið snjóbílinn augum og fræðst um ævintýri hans og þá íslensku könnunar- og björgunarleiðangra þar sem snjóbíllinn Gusi var í fararbroddi.

Gusi mættur á Skógasafn. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinJón og Jóga fyrir okkur öll
Næsta greinAð skeyta hvorki um skömm né heiður