Snípufluga breiðir úr sér á Suðurlandi

Snípufluga hefur verið að breiða úr sér í uppsveitum Suðurlands á síðustu árum en flugan er ein sú stærsta hér á landi og ein sinnar gerðar.

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur, segir frá flugunni á Facebooksíðu sinni, Heimur smádýranna. Erling segir fluguna afar sérstaka og glæsilega en hún hefur vakið athygli fólks einkum í sumarhúsum í uppsveitum Suðurlands.

„Hún hefur verð nefnd snípufluga vegna hins langa og beina sograna sem helst minnir á nef mýrisnípunnar. Flugan er mikil veiðikló. Hún situr háreist að framan og vökul, sér bráð á löngu færi og ræðst til atlögu leiftursnöggt, stingur beittum sogrananum inn í bráðina og sýgur til sín innvolsið. Um hríð fannst tegundin einungis í Vaglaskógi fyrir norðan og Brekkuskógi fyrir sunnan. Nú er hún útbreidd í birkiskógum uppsveita á Suðurlandi, einnig í Grímsnesi og eflaust víðar,“ segir Erling.

Snípuflugan á pödduvefnum

Fyrri greinÞórhallur skoraði þrennu fyrir Stokkseyringa
Næsta greinNordic Affect í Skálholtskirkju