Snilldarverk bauð lægst í vegheflun

Íslenskur malarvegur. Þessi er reyndar með bundnu slitlagi í dag. sunnlenska.is/Helga RE

Vegheflum verður beitt á samtals 1.640 kílómetra af malarvegum á Suðurlandi á þessu ári og því næsta. Snilldarverk á Hellu mun líklega sjá um megnið af verkinu.

Viðhald og vegheflun á malarvegum á suðursvæði Vegagerðarinnar var boðin út í þrennu lagi og voru tilboð í verkin opnuð í gær.

Stærsti hluti verksins er unninn frá þjónustustöð í Vík í Mýrdal, samtals 840 kílómetrar. Snilldarverk bauð tæpar 20,7 milljónir króna í verkið en Arnar Stefánsson á Rauðalæk bauð tæplega 23,4 milljónir króna. Áætlaður verktakakostnaður er rúmar 24,5 milljónir króna.

Snilldarverk átti einnig lægsta boðið í 600 km frá þjónustustöðinni á Selfossi, rétt rúmar 17 milljónir króna en Arnar Stefánsson bauð rúmlega 17,1 milljón króna. Munurinn á tveimur lægstu tilboðunum var 0,7%. Þjótandi á Hellu bauð rúmar 19,7 milljónir króna en áætlaður verktakakostnaður er tæpar 18,3 milljónir króna.

Að lokum voru boðnir út 200 km frá þjónuststöðinni í Hafnarfirði og átti Þjótandi eina boðið, tæpar 7,7 milljónir króna en áætlaður verktakakostnaður er rúmlega 6,2 milljónir króna.

Þessum verkefnum á að vera að fullu lokið þann 31. desember ári 2021.

Fyrri grein„Ástandið á Þykkvabæjarvegi ekki boðlegt“
Næsta greinSkítamórall fer aftur í ræturnar