Snerist á veginum og lenti framan á öðrum bíl

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þrír voru fluttir á sjúkrahús eftir árekstur á Suðurlandsvegi við afleggjarann að Arnarbæli í Ölfusi í hádeginu í gær.

Þar fipaðist ökumanni við akstur og snerist bíll hans á veginum áður en hann lenti framan á bíl sem ekið var úr gagnstæðri átt. Bíllinn kastaðist síðan út fyrir veg og stöðvaðist ofan í skurði.

Tveir voru í bílnum sem snerist og einn í hinum bílnum og voru allir fluttir til aðhlynningar á sjúkrahús. Í dagbók lögreglunnar segir að meiðsli fólksins séu talin minni en ætlað var í fyrstu. Suðurlandsvegur var lokaður í tvær og hálfa klukkustund vegna slyssins en umferð beint um hjáleið.

Auk þessa slyss eru sjö önnur umferðaróhöpp skráð í dagbók lögreglunnar í liðinni viku og voru þau öll án meiðsla.