Snarræði nágranna bjargaði miklu

Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Íbúi á neðri hæð bjargaðist út eftir að eldur kom upp í tveggja hæða einbýlishúsi við Þelamörk í Hveragerði í morgun. Fjölskylda sem býr á efri hæðinni var að heiman.

Friðrik Sigurbjörnsson, sem býr í næstu götu, varð eldsins var um klukkan 7 í morgun og eftir að hafa hringt í Neyðarlínuna þusti hann af stað og vakti íbúann á neðri hæðinni.

„Ég held að ég hafi aldrei barið jafn fast á dyr og rúður og þennan morguninn enda stressaður yfir því að fimm manna fjölskyldan á efri hæðinni væri heima. Allir voru auðvitað í miklu sjokki í morgun, en sem betur fer fór þetta betur en á horfðist þó að einhverjar skemmdir hafi orðið á húsinu,“ segir Friðrik.

„Þau björguðu þessu bara“
Nágrannar, sem höfðu vaknað við brothljóð og hvelli frá eldinum, drógu síðan fram garðslöngu og slökkvitæki og héldu eldinum í skefjum þar til slökkviliðið mætti á vettvang.

„Þau björguðu þessu bara, það er alveg óhætt að segja það. Eldurinn var á svölunum en það var snarræði nágrannanna að þakka að hann barst ekki inn í húsið,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is. „Það þarf ekki meira en garðslöngu og slökkvitæki til þess að gera gagn, þannig að þegar við komum á vettvang gekk slökkvistarfið hratt fyrir sig. Reykkafarar fóru inn í íbúðina til þess að við værum fullvissir um að það væri enginn heima og við þurftum síðan að opna þakið til þess að sjá hvort þar leyndist glóð,“ bætti Lárus við.

Slökkviliðsmenn frá Hveragerði unnu að slökkvistarfi ásamt einni vakt frá Selfossi, með dælubíl og stigabíl, auk þess sem lögregla og sjúkraflutningamenn voru kallaðir á vettvang.

Annríki hjá slökkviliðinu
Að sögn Lárusar hefur verið mikið að gera síðasta sólarhringinn hjá Brunavörnum Árnessýslu en fimm útköll hafa borist síðasta sólarhringinn. Auk eldsvoðans í Hveragerði þá kviknaði eldur þar sem verið var að bræða þakpappa á fjölbýlishúsi á Selfossi í gær, tvisvar hafa borist brunaboð frá eldvarnarkerfum og einu minniháttar umferðarslysi þurftu slökkviliðsmenn að sinna.

Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
Fyrri greinÞrjú rauð á Grýluvelli – Uppsveitir töpuðu úti
Næsta greinSelfoss átti ekkert svar