Snarræði slökkviliðs bjargaði miklu

Talsvert tjón varð þegar eldur kom upp í sumarhúsi í Miðdal austan við Laugarvatn laust fyrir klukkan 18 í dag.

Nágranni tilkynnti Neyðarlínunni um reyk frá húsinu og voru slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu á Laugarvatni snöggir á vettvang.

Snarræði slökkviliðsins bjargaði því að ekki fór verr því þegar þeir komu á staðinn var töluverður eldur í utanáliggjandi geymslu auk þess sem eldur var kominn í þak og inn í húsið.

„Okkar menn á Laugarvatni voru mjög snöggir á staðinn og það skipti sköpum í þessu tilviki. Tjónið er talsvert en það náðist að bjarga húsinu,“ sagði Þórir Tryggvason, varðstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Auk Laugvetninga voru kallaðir út slökkviliðsmenn frá Reykholti og Flúðum, til þess að tryggja vatnsöflun og gekk slökkvistarf vel að sögn Þóris.

Fyrri greinFSu valtaði yfir Val
Næsta greinSelfoss í úrslitakeppnina – Hanna markadrottning deildarinnar