Þrátt fyrir að norðan hvassviðrið hafi verið að ganga niður í dag eru enn snarpar vindhviður undir Ingólfsfjalli.
Nokkrir ökumenn lentu í vandræðum þar síðdegis og snemma á sjötta tímanum fauk pallbíll með stóran eftirvagn meðal annars útaf veginum við Þórustaðanámu. Vagninn lenti á ljósastaur og er ónýtur eftir óhappið.
Á þjóðvegi 1 lentu ökumenn í hremmingum á Mýrdalssandi í dag vegna sandbyls og þar urðu skemmdir á ökutækjum, auk þess sem bylurinn hamlaði sýn ökumanna í verstu hryðjunum.