Smyglaði súluöspinni til Íslands

Helga og Sigurdór í fallega garðinum sínum í austurbæ Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarfélagið Árborg afhenti árlegar umhverfisviðurkenningar sínar um síðustu helgi á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi. Garðurinn í Rauðholti 9 á Selfossi var valinn fallegasti garðurinn í sveitarfélaginu, en eigendur hans eru Helga R. Einarsdóttir og Sigurdór Karlsson.

Í umsögn umhverfisnefndar Árborgar segir að garðurinn sé snyrtilegur og fallegur, með fjölbreyttum gróðri og að mikil vinna og rækt hafi verið lögð í hann í yfir 50 ár.

Það er svo sannarlega rétt, því Helga og Sigurdór, eru ein af frumbyggjunum í austurbænum á Selfossi og hafa búið í Rauðholti 9 síðan 1967 og fyrstu trjánum í garðinn var plantað árið 1968. Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem garður Helgu og Sigurdórs er verðlaunaður því umhverfis- og gróðurverndarnefnd Selfosskaupstaðar verðlaunaði garðinn fyrir fegurð og snyrtilegt umhverfi árið 1991.

Helga segir að til þess að „gera garðinn frægan“ þurfi fólk að hafa dálítinn áhuga á ræktun og þolinmæði við hreinsun og umhirðu. „Umfram allt að ætla sér ekki um of. Það er betra að fara hægt af stað og finna út úr því hvort maður hafi eitthvað gaman af því að dunda í garðinum,“ segir Helga.

„Það eru að mínu mati fjöldamargir garðar í sveitarfélaginu sem ættu skilið að fá þessa viðurkenningu frekar en við, en ég leyfi mér að líta svo á að við fáum þetta núna sem einskonar heiðursviðurkenningu fyrir 55 ára úthald við ræktun og umhirðu húss og lóðar.“

Enginn tollvörður myndi vilja opna pakkann
Þegar Bragi Bjarnason, formaður umhverfisnefndar Árborgar, afhenti verðlaunin á laugardagskvöldið tók hann fram að Helga væri „móðir súluaspanna“ á Selfossi. Hún segir að það sé kannski full mikið sagt en vissulega komi þær allmargar frá henni og það er saga að segja frá því hvernig þær komu til Íslands.

„Við fórum til Noregs, í Þrændalög, árið 1981 nokkur hjón saman og dvöldum þar í hálfan mánuð. Þar var allt fullt af þessum glæsilegu trjám og við höfðum aldrei kynnst þeim fyrr. Vorum sum alveg uppnumin. Okkur tókst að safna nokkrum rótarskotum sem við sótthreinsuðum og pökkuðum svo í nokkrar pakkningar, sem við skiptum niður á töskurnar okkar,“ segir Helga, og treystir á að áður en yfirvöld lesi lengra í þessu viðtali sé glæpurinn fyrndur.

„Það var vel búið um allt saman í töskunum og við vissum vel að það gat verið bannað að flytja þetta á milli landa, þó við hefðum vandað okkur við þvottinn. Við komum okkur saman um að ef til þess kæmi að tollverðir spyrðu um innihald pakkanna, þá væri þetta allt saman lútfiskur. Enginn tollvörður myndi vilja opna þann pakka,“ segir Helga brosandi og „innflutningurinn“ gekk eins og í sögu.

„Það tókst svo að ala nokkrar plöntur áfram af þessum litlu innflytjendum og við fengum alla vega eitt lítið tré hvert. Það var nálægt 1990. Mér tókst svo með árunum að taka upp „afkomendur“ minnar hríslu og þær fóru að dreifast hér um bæinn. Fyrstu árin ætlaði ég að skrá hvert þær færu, en þegar ég var komin yfir hundrað gafst ég upp, enda voru þá farnar að birtast plöntur hjá öðrum sem ekki komu frá mér. Ég sá súluösp bæði í Lystigarðinum á Akureyri og í Grasagarðinum í Laugardal, stakar plöntur um svipað leyti og þetta allt var í gangi, svo aðrir hafa verið nokkuð samferða okkur við þessar tilraunir,“ segir Helga að lokum.

Garðaskoðun á fimmtudag
Verðlaunagarðurinn í Rauðholti 9 verður opinn fyrir gesti og gangandi að skoða, fimmtudaginn 11. ágúst kl. 17:00 og 20:00.

Súluaspirnar setja skemmtilegan svip á Rauðholtið. Tvær standa í garðinum í Rauðholti 9 og sú lengst til hægri er í Rauðholti 11. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÆvintýrið úti
Næsta greinValborg og Fagvís sameinast undir nafni Valborgar