Smit hjá nemanda í Vallaskóla

Vallaskóli á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Nemandi í 4. bekk Vallaskóla greindist smitaður af COVID-19 í seint í gærkvöldi. Tólf aðrir nemendur og þrír starfsmenn skólans eru komnir í sóttkví.

Nemandinn mætti í skólann í gærmorgun, einkennalaus og blandaðist við nemendur í tveimur list- og verkgreinahópum í 4. bekk. Staðfestur grunur um smit var þó ekki ljós fyrr en forráðamaður hafði samband við skólann 50 mínútum síðar. Var nemandinn þá umsvifalaust sendur heim.

Seint í gærkvöldi var staðfest að viðkomandi nemandi væri smitaður. Fór þá skólastjóri yfir stöðuna með smitrakningarteymi sóttvarnalæknis og niðurstaðan var sú að þeir sem voru útsettir fyrir smiti á meðan nemandinn var í skólanum væru komnir í sóttkví. Um er að ræða 12 nemendur og 3 starfsmenn skólans. Að höfðu samráði við smitrakningarteymið eiga aðrir ekki að fara í sóttkví.

Í tilkynningu frá skólanum segir að einhver skerðing verði á skólastarfi á morgun vegna þessa, hjá nemendum á miðstigi og efsta stigi. Skólabyggingar verða allar sótthreinsaðar áður en skóli hefst og verður skólanum skipt niður í sóttvarnarhólf á morgun, öryggisins vegna.

Fyrri greinPlokk er ein besta líkamsræktin
Næsta greinÞórsarar sannfærandi eftir COVID-hlé