Smíði Herjólfs á lokametrunum

Herjólfur í Gdansk. Ljósmynd/Vegagerðin

Verulega styttist í að smíði nýs Herjólfs klárist. Skipasmíðastöðin CRIST S.A. í Gdansk í Póllandi er á lokasprettinum í smíðinni sjálfri en endanlegum frágangi er þó ekki að fullu lokið.

Þá eiga flokkunarfélag skipsins og Samgöngustofa eftir að taka skipið út. Þegar þessu er lokið og brugðist hefur verið við athugasemdum á fullnægjandi hátt er skipið tilbúið. Auk þessara atriða sem tengjast smíðinni þarf að ganga frá lokauppgjöri milli kaupanda og seljanda áður en til afhendingar kemur.

Skoðunarmenn Samgöngustofu eru væntanlegir á miðvikudag til að fara í upphafsskoðun á skipinu. Sú skoðun tekur nokkra daga en það er ekki fyrr en að lokinni þeirri skoðun sem hægt er að gefa út haffærniskírteini Herjólfs. Öðruvísi verður ferjunni því ekki siglt heim.

Vegagerðin er í viðræðum CRIST S.A. um uppgjör lokagreiðslu fyrir ferjuna. Lokagreiðsla samanstendur af 15% samningsfjárhæðar auk uppgjörs fyrir umsamin aukaverk að frádregnum samningsbundnum frádrætti vegna tafa á afhendingu og tæknilegra frávika frá smíðalýsingu samkvæmt nánar tilgreindri aðferðarfræði sem tiltekin er í samningi milli aðila. Þessar viðræður eru á viðkvæmu stigi og því er ekki unnt að greina frá innihaldi þeirra að svo stöddu en gert er ráð fyrir að mál skýrist frekar undir lok næstu viku, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni.

Fyrri greinHamar eina sigurliðið
Næsta greinSuðurlandsvegi lokaður vegna umferðarslyss – Búið að opna