Smíða skartgripi úr gamalli mynt

Gunnar og Árni Veigar við vinnu sína. Ljósmynd/Afi og ég

Afi og ég eru handsmíðaðir skartgripir úr gamalli íslenskri mynt sem hafa vakið þó nokkra athygli. Mennirnir á bak við hönnunina eru Hvergerðingurinn Árni Veigar Thorarensen og afi hans, Gunnar Thor. Gunnarsson.

„Í kringum 1970 sá afi hring sem var smíðaður úr túkalli. Síðan þá byrjaði hann að sanka að sér mynt ef ske kynni að hann færi nú einhvern tímann að smíða hringa sjálfur. Síðan gleymdist myntin. Árið 2017 fann afi myntina aftur þegar hann var að flytja og mundi eftir hugmyndinni. Það var þá sem hann ákvað að prufa sjálfur að smíða hringa úr myntinni og fékk mig í lið með sér,“ segir Árni í samtali við sunnlenska.is.

Árni segir að í kjölfarið hafi þeir félagarnir farið á silfursmíðanámskeið í Handverkshúsinu til að læra grunninn að skartgripagerð. „Síðan var það bara að prufa sig áfram og læra af mistökunum. Við byrjuðum heima á eldhúsborðinu hans afa og erum núna að koma okkur upp endanlegri aðstöðu,“ segir Árni og bætir því við að þeir sjái jafnt um að hanna og smíða skartgripina. „Afi og ég höfum alltaf haft áhuga á hönnun. Við höfum alltaf verið að búa eitthvað til og skapa,“ segir Árni.

Ljósmynd/Afi og ég

Frábærar viðtökur
Árni og Gunnar smíða hringa, tölur og ermahnappa úr myntinni. „Viðtökurnar hafa verið frábærar. Fólki finnst það sniðugt hvernig er hægt að endurnýta þessa gömlu mynt,“ segir Árni en silfruðu og gylltu ermahnapparnir með skjaldarmerkinu eru vinsælastir hjá þeim. Hægt er að gefa ermahnappa og hringa í tækifærisgjafir með fæðingarári viðkomandi, það er að segja ef myntin var slegin á því ári en hún var aðeins slegin á ákveðnum árum.

„Við höfum meðal annars smíðað giftingarhringa. Við smíðum hringana aðallega úr 1 krónum, 2 krónum og 5 aurum. Ermahnappana smíðum við aðallega úr gömlum 50 aurum, 25 aurum, 5 krónum, 1 krónum og gamalli konungsmynt síðan Danir voru við völd,“ segir Árni og bætir því við að hann og afi hans hafa átt margar góðar kvöldstundir saman við smíðar.

Aðspurður hvort þeir sjái fram á hráefnaskort segir Árni að eins og er eigi þeir nóg af mynt. „En á endanum mun hún auðvitað klárast hjá okkur, svo við þiggjum alla mynt sem okkur bíðst,“ segir Árni að lokum.

Hægt er að nálgast Afi og ég skartgripina í Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar, Sjafnarblóm á Selfossi, Mika í Reykholti og á Facebook síðunni Afi og ég.

Facebook-síða Afi og ég

Ljósmynd/Afi og ég
Fyrri greinÞrettán kirkjur Ámunda Jónssonar
Næsta greinHarður árekstur á Selfossi