Smávélar stækka Sambyggðina

Þorlákshöfn. Ljósmynd / Chris Lund

Í vikunni hófust framkvæmdir við gatnagerð í Sambyggð í Þorlákshöfn þar sem nýjar götur munu liggja að fjölbýlum við Sambyggð 14, 14b, 18 og 20.

Smávélar ehf. á Selfossi buðu lægst í verkið, 21,8 milljónir króna sem var 1,5% yfir kostnaðaráætlun verksins en hún var 21,5 milljónir króna.

Athygli vekur að öll tilboðin sem bárust voru yfir kostnaðaráætlun. 

Aðalleið ehf bauð 22,1 milljón króna, Stórverk ehf 23 milljónir, Borgarvirki ehf 23,1 milljón, HB vélar ehf 24,7 milljónir og Gleipnir ehf 25 milljónir króna.

Unnið verður samkvæmt reglum vinnueftirlits um hávaðamengun í umhverfinu af völdum tækjabúnaðar til notkunar utanhúss en búast má við að eitthvað ónæði muni skapast fyrir íbúa í Sambyggð og nágrenni vegna framkvæmdanna.

Áætluð verklok eru þann 1. ágúst næstkomandi.

Fyrri greinGröfutækni bauð lægst í Smáratúnið
Næsta greinAusturvegi lokað vegna endurnýjunar á veitukerfum