Smásögur Kiefer og Freydísar verðlaunaðar

Í síðustu viku voru kunngerð úrslit í ensku smásagnakeppninni sem félag enskukennara á Íslandi (FEKÍ) stendur fyrir. Tveir nemendur Grunnskólans í Hveragerði unnu til verðlauna.

Smásagnakeppnin er haldin árlega og hefst hún á evrópska tungumáladeginum þann 26. september.

Grunnskólinn í Hveragerði hefur mörg undanfarin ár tekið þátt í þessari skemmtilegu keppni með eftirtektarverðum árangri. Að sögn Ólafs Jósefssonar, enskukennara, er því ekki síst að þakka að nemendur skólans hafa sýnt keppninni sífellt meiri áhuga og lagt mikinn metnað í sögurnar sínar.

Að þessu sinni unnu tveir nemendur skólans til verðlauna; Kiefer Rahhad Arabiyat í 5. bekk hlaut 1.-2. verðlaun í flokknum 5. bekkur og yngri og Freydís Ósk Martin í 6. bekk hlaut 2. verðlaun í flokknum 6.- 7. bekkur.

Verðlaunaafhendingin fór fram á Bessastöðum, þar sem Eliza Reid forsetafrú tók á móti vinningshöfum og heiðraði þau, ásamt stjórn FEKÍ.

„Það þarf vart að taka fram að við erum afar stolt af þessum nemendum sem og öllum þeim sem tóku þátt,“ segir Ólafur.

Fyrri grein„Erum afar stolt af þessum verðlaunum“
Næsta greinÞyrla kölluð að slysstað við Lómagnúp