Smáskjálftahrina í Eyjafjallajökli

Eyjafjallajökull. Ljósmynd/Sigurður Jónsson

Smáskjálftahrina varð undir miðri öskju Eyjafjallajökuls snemma í morgun. Um 10 skjálftar urðu á einni klukksutund, allir á bilinu 0,4-1 að stærð.

Greint er frá þessu á Facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands og þar á bæ telja menn hrinuna þá markverðustu sem orðið hefur í eldstöðinni frá umbrotunum árið 2010.

„Skjálftavirkni undir eldstöðinni virðist fara nokkuð vaxandi þessi misserin. Tugir skjálfta hafa mælst síðustu mánuði á töluverðu dýpi. Síðasta áratuginn hafa einungis um 1-2 skjálftar verið að mælast á mánuði að meðaltali.
Allir skjálftarnir í morgun voru á 20-25 km dýpi og eru þetta því hreyfingar í rótum eldstöðvarinnar. Skjálftar á þessu dýpi hér á landi eru yfirleitt túlkaðir sem afleiðing kvikuhreyfinga,“ segir í færslunni.

Eyjafjallajökull hefur lítið bært á sér frá eldgosunum 2010. Í aðdraganda þeirra umbrota hafði skjálftavirkni verið viðloðandi í hátt í tvo áratugi. Smáskjálftavirkni hófst 1992 og fyrir eldgosin urðu þrjú kvikuinnskot í miðri eldstöðinni.

Fyrri greinÓður til Vestmannaeyja og gleðinnar á Þjóðhátíð
Næsta greinSelfoss enn á sigurbraut