Smalað af gossvæðinu

Almannavarnir hafa lokað fyrir akstur á Mýrdalsjökli en mjög slæmt veður er nú í nágrenni Fimmvörðuháls. Bílum og göngufólki er smalað suður Skógaheiðina.

Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, sagði í viðtali á Rás2 fyrir nokkrum mínútum að vel á annað hundrað bíla séu nú í bílalest niður heiðina.

Einnig er verið að aðstoða göngumenn til byggða en mjög lélegt skyggni er við gosstöðina og blint á köflum. Göngumenn sem hafa fengið far niður af heiðinni skipta tugum. Enginn sé þó í hættu en um 60 björgunarsveitarmenn eru við störf á svæðinu.

Þrjú slys hafa orðið á gönguleiðinni við Þórsmörk og er þyrla Landhelgisgæslunnar nú á svæðinu að sækja meidda göngumenn en annar þeirra er ökklabrotinn.