Slysavarnir styrktar í Skaftafelli og Öræfum

Ljósmynd/Landsbjörg

Menningar- og viðskiptaráðuneytið gerði þann 1. júní síðastliðinn viðauka við samning við Slysavarnafélagið Landsbjörg um öryggismál og slysavarnir ferðamanna. Markmiðið með viðaukanum er að efla viðbragðsgetu í Skaftafelli og Öræfum ef slys eða annað óhapp verður.

Þar er langt er í daglega viðbragðsþjónustu og mikil aukning ferðamanna á svæðinu kallar eftir auknu viðbragði.

„Gott neyðarviðbragð á fjölförnustu ferðamannastöðum landsins er gríðarlega mikilvægt. Ég hef lagt mikla áherslu á þetta sem ferðamálaráðherra. Það er einfaldlega nauðsynlegt að styrkja innviði á þessu svæði og auka enn frekar samvinnu á milli viðbragðsaðila á svæðinu; lögreglu, sjúkraflutninga og Vatnajökulsþjóðgarðs,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Ráðuneytið styrkir Landsbjörgu um 2,5 milljónir króna og gildir samningurinn til 1. september næstkomandi.

Landsbjörg verður með mannaðar vaktir á svæðinu í fjórar til fimm vikur í sumar. Í því felst meðal annars að björgunarsveitarfólk er á vakt allan sólarhringinn til að bregðast við og björgunarsveitarbílar eru á svæðinu. Landsbjörg verður með aðstöðu í Skaftafelli þar sem vakt er yfir daginn til að aðstoða ferðamenn og aðra vegfarendur.

Fyrri greinSpennuþrunginn sjö marka leikur á Selfossi
Næsta greinFer oftast á fætur á morgnana