Sluppu naumlega úr brennandi bústað

Tveir ungir menn áttu fótum sínum fjör að launa þegar mikil sprenging varð í sumarbústað við Seljavelli laust eftir miðnætti í nótt. Bústaðurinn brann til kaldra kola.

Bifreið sem þar stóð fyrir utan brann einnig og er gjörónýt eftir. Ungu mennirnir sluppu nokkurnveginn ómeiddir frá sprengingunni og eldsvoðanum og komust út undir bert loft af sjálfsdáðum. Annar þeirra hlaut smávægileg brunasár en ekki var talin þörf á að flytja mennina á sjúkrastofnun.

Allt tiltækt lið, 10 manns, var sent á staðinn frá Hvolsvelli á þremur slökkvibílum. Bæði bústaður og bíll stóðu í ljósum logum þegar að var komið. Slökkvistarf gekk greiðlega og tók um hálfan annan tíma.

Orsök sprengingarinnar liggur ekki fyrir með óyggjandi hætti. Gunnar Eyjólfsson, vaktstjóri hjá slökkviliðinu á Hvolsvelli, sagðist í samtali við fréttamann RÚV telja líklegt að rekja megi sprenginguna til gasleka.

RÚV greindi frá þessu.

Fyrri greinFjarlægðu 30-40 tonn af grjóti
Næsta greinHúsbíll fauk útaf í Selvogi