Sluppu með minniháttar meiðsli

Þrír voru fluttir á heilsugæsluna á Hvolsvelli til aðhlynningar eftir bílveltu á Suðurlandsvegi um klukkan níu í morgun.

Ökumaður fólksbíls missti stjórn á honum, hafnaði utan vegar og fór eina veltu. Tveir aðrir voru í bílnum en allir sluppu með minniháttar meiðsli og fór því betur en á horfðist. Slysið varð við afleggjarann niður að Gunnarshólma.

Mjög hált er á Suðurlandsvegi eftir að það rigndi í gær en frysti í nótt. Að sögn lögreglu er glært hálkulag yfir öllum veginum og ástæða til að aka mjög varlega og alls ekki hratt.

Það eru hálkublettir á Hellisheiði og í Þrengslum líkt og nokkuð víða á Suðurlandi. Raunar er hálka undir Eyjafjöllum og austur að Vík í Mýrdal, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.