Sluppu án meiðsla úr bílveltu

Fimm sluppu án teljandi meiðsla úr bílveltu á Skeiðavegi, skammt frá Skálholtsafleggjara, um klukkan hálftólf í gærkvöldi.

Svo virðist sem ökumaður bifreiðarinnar hafi misst stjórn á henni í glerhálku með þeim afleiðingum að bíllinn fór útaf veginum og hafnaði á hvolfi.

Ökumaður og þrír farþegar komust af sjálfsdáðum út úr bílnum en farþegi í framsæti sat fastur inni í bílnum. Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnesýslu frá Flúðum og Selfossi mættu á vettvang á tækjabílum og aðstoðuðu farþegann við að komast út en ekki þurfti að beita klippum til þess.

Fólkið var allt flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til skoðunar og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sluppu allir án teljandi meiðsla.

Fyrri grein„Þetta verð er komið til að vera“
Næsta greinÓvissustigi við Bárðarbungu aflýst