„Slökkvitækið sannaði sig“

Slökkviliðsmenn við störf í Þorlákshöfn í dag. sunnlenska.is/Vignir Arnarson

Eldur kviknaði í þaki iðnaðarhúsnæðis sem er í smíðum við Unubakka í Þorlákshöfn laust fyrir klukkan tvö í dag. Verið var að ganga frá tjörupappa og komst eldur í þéttifrauð og hljóp hann eftir þakinu.

„Þeir brugðust hárrétt við, voru með slökkvitæki við höndina og náðu að klára þetta með því,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Þorlákshöfn mætti á vettvang ásamt því sem fjölmennt lið frá Selfossi var kallað út en þegar lá fyrir að eldurinn væri slökktur var liðsaukanum frá Selfossi snúið við.

„Okkar menn skoðuðu vettvanginn með hitamyndavél og fullvissuðu sig um að það væri ekki eldur eða hiti í þakinu. Það er óhætt að segja að slökkvitækið sannaði sig þarna,“ sagði Lárus ennfremur.

Fyrri greinFyrir hvern setur þú upp kolluna?
Næsta greinFjölskylduvænar breytingar í Hveragerði