Slökkvistöðin verður áfram í Reykholti

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu (BÁ) mun færa sig til innan núverandi byggingar í Reykholti í Biskupstungum og fá úthlutað því húsnæði sem áhaldahús Bláskógabyggðar hefur í húsinu.

Áður voru uppi hugmyndir innan BÁ að loka slökkvistöðinni í Reykholti og byggja nýja stöð við Iðjuslóð, nálægt nýja hringtorginu á Flúðum í Hrunamannahreppi. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar lagðist gegn þeim áformum lagði til að BÁ gæti fengið stærra rými í núverandi húsnæði.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar var lagt fram minnisblað frá BÁ þar sem óskað var eftir því að BÁ fengi úthlutað því húsnæði sem áhaldahús sveitarfélagsins hefur, í stað þess sem nú er. Einnig að slökkvistöðin fái aðgengi að salernisaðstöðu og fundarherbergi áhaldahússins.

Sveitarstjórnin fagnaði þessari ósk BÁ og samþykkti tillöguna samhljóða. Sá hluti hússins sem í dag hýsir slökkvistöð verður aðstaða áhaldahússins eftir að skiptin hafa átt sér stað.

Í bókun sveitarstjórnar segir að með þessari ákvörðun sé starfsemi slökkvistöðvar í Reykholti tryggð til framtíðar og uppbyggingu stöðvarinnar gefið aukið svigrúm.

Fagráð BÁ hefur lýst því yfir að áfram verði unnið að því að BÁ kaupi slökkvistöðvarnar tvær í Bláskógabyggð og þegar BÁ hefur gengið frá kaupunum mun sveitarstjórn Bláskógabyggðar falla frá fyrri fyrirvörum sínum gagnvart kaupum BÁ á hluta Björgunarmiðstöðvarinnar á Selfossi.

Fyrri greinVel heppnaður fundur bæjar- og sveitarstjóra
Næsta greinForeldrafélagið óánægt með sumarlokunina