Slökkviliðsmenn hafa þungar áhyggjur

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu hafa þungar áhyggjur af þróun mála hjá BÁ undanfarnar vikur varðandi stöðu yfirmanna liðsins.

Þetta segir í áskorun sem áttatíu slökkviliðsmenn, meginþorri mannafla liðsins, undirrituðu og afhentu stjórn BÁ og Héraðsnefnd Árnessýslu í morgun. Ari Björn Thorarensen, formaður fagráðs BÁ, tók við áskoruninni.

Kristjáni Einarssyni, slökkviliðsstjóra, var sagt upp um miðjan október og í kjölfarið sagði fagráðið bakvaktaálagi aðstoðarslökkviliðsstjóra upp frá og með mánaðamótum nóvember og desember.

„Eins og nú horfir eru báðir yfirmenn liðsins að hverfa frá störfum með afleiðingum sem raska mun til muna starfsemi liðsins til langs tíma með ófyrirséðum afleiðingum og kostnaði. Núverandi slökkviliðsstjórar hafa með elju og vinnusemi, á liðnum árum, skapað eitt öflugasta og samheldnasta slökkvilið landsins svo eftir er tekið,“ segir í áskoruninni.

Í niðurlagi hennar skora slökkviliðsmennirnir á yfirstjórn BÁ að sýna umburðarlyndi í þeim málum sem upp hafa komið og semji við báða slökkviliðsstjóra liðsins um viðunandi málalyktir varðandi þeirra mál hjá BÁ.

Eftir að hafa tekið við áskoruninni sagði Ari Björn að í gær hefði verið samið við ráðningarskrifstofu um að vinna að ráðningu nýs slökkviliðsstjóra og starfið verði væntanlega auglýst í næstu viku. Stjórnin leggi áherslu á að faglega verði staðið að ráðningunni. Einnig sé í gangi vinna með lögfræðingum varðandi mál Kristjáns Einarssonar. Þá sé sáttatónn í máli aðstoðarslökkviliðsstjórans og hann muni væntanlega vinna áfram þar til nýr slökkviliðsstjóri tekur til starfa.

Fyrri greinFrábær útisigur Þórsara
Næsta greinValt á hliðina eftir harðan árekstur