Slökkviliðið komið í Björgunarmiðstöðina

Brunavarnir Árnessýslu luku í kvöld flutningum í Björgunarmiðstöðina á Selfossi. Slökkviliðið fór hópakstur um Selfoss af þessu tilefni.

Flutningur slökkviliðsins hefur tekið nokkra daga en í kvöld voru slökkvibílarnir og fataskápar liðsmanna fluttir á Árveginn. Rúmt er um BÁ á nýja staðnum og aðstaðan öll eins og best verður á kosið þó að liðsmenn eigi eftir að koma sér endanlega fyrir í húsinu.

„Þetta bar nokkuð brátt að að við þyrftum að losa gömlu stöðina þannig að við höfðum ekki mikinn tíma til að flytja. Við dengdum þessu öllu inn á gólf í Björgunarmiðstöðinni og verðum síðan einhverjar vikur að greiða úr því. Það er stefnt að því að vígja aðstöðuna formlega þegar við erum búnir að koma okkur fyrir með haustinu,“ sagði Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Brunavarnir Árnessýslu leigja 1200 fermetra í Björgunarmiðstöðinni og segir Kristján að breytingin sé gríðarleg. „Við fáum m.a. ljósleiðara og öfluga varðstofu þar sem við getum verið með ferilvöktun í öllum útköllum og leiðbeint bílunum með aðstoð tölvu ef þess þarf. Það er gríðarlegur áfangi að komast hérna inn og við erum búnir að bíða lengi eftir þessu. Við erum mjög ánægðir með bæjarstjórn Árborgar og stjórn Brunavarna Árnessýslu sem gerðu okkur kleift að komast hingað inn,“ sagði Kristján að lokum.

slokkvilid_gamla280611gk_559690478.jpg

slokkvilid_akstur280611gk_443497559.jpg

slokkvilid_nyja280611gk_555108597.jpg

Fyrri greinFjórir vilja í Skálholt
Næsta greinBrotnaði á báðum fótum