Slökkvið kallað að spennistöð á Selfossi

Rafmagnslaust er í Flóanum vegna bilunar í aðveitustöð Rarik á Selfossi. Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu var kallað út eftir að stöðin fylltist af reyk.

Spennir í stöðinni sló út klukkan 10:51 í morgun og var slökkviliðið kallað út rúmum tíu mínútum síðar þar sem talsverður reykur var í húsinu.

Að sögn Péturs Péturssonar, slökkviliðsstjóra, var enginn eldur í húsinu. „Það hefur brunnið yfir aflrofi í einum af háspennuskápunum þarna inni. Við leitum af okkur allan grun með hitamyndavélum sem gagnast okkur vel í verkefnum sem þessum. Það þurfti ekkert að reykræsta, það gustaði vel þarna í gegn um leið og hurðir voru opnaðar,“ sagði Pétur í samtali við sunnlenska.is.

Slökkviliðið hafði talsverðan viðbúnað vegna útkallsins þar sem um spennistöð er að ræða.

Sérfræðingar frá Rarik vinna nú að því að finna bilunina og gera við hana.

UPPFÆRT: Bilun er í rofa og streng fyrir Sandvíkurhrepp og Tjarnarbyggð. Unnið er að viðgerð. Straumleysi getur varað fram eftir degi.

UPPFÆRT KL. 16:30: Aðgerðum í aðveitustöð á Selfossi er lokið og er ekki von á frekara rafmagnsleysi vegna þessa.

Fyrri greinÁrni Kóps mætir aftur til leiks á Heimasætunni
Næsta greinJákvæður rekstur Rangárþings ytra