Slök byrjun í Veiðivötnum

Veiði í Veiðivötnum hefur verið slök fyrstu tvær vikurnar ef miðað er við síðustu ár. Aðeins komu 2.264 fiskar á land í viku tvö.

Það þarf að fara ein sjö ár aftur í tímann til að finna lakari veiði. Mest veiddist í Litlasjó í 2. viku, 526 fiskar. Langavatn og Stóra Fossvatn gáfu einnig góða veiði.

Kunnugir segja að kuldatíð gæti skýrt slæmar gæftir, en skýringin gæti líka verið að mikið magn af toppflugu kom upp úr vötnunum í vikunni. Fiskarnir voru úttroðnir af flugunni. Veiðin gæti lagast þegar flugan fer að minnka.

Hæst meðalþyngd er í Ónefndavatni, Pyttlum, Litlasjó og Grænavatni (3,0-3,6 pd). Þyngsti fiskurinn kom úr Hraunvötnum, 11,4 pd.

Í fyrstu vikunni komu 3.654 fiskar á land en í fyrra voru þeir um 6.000 fyrstu vikuna.