Slegið af kappi á Bakkanum

Aldamótahátíðin á Eyrarbakka fer fram um helgina en þar var meðal annars keppt í slætti í dag með orfi og ljá.

Ekki dugði mönnum að slá sem hraðast heldur var teigurinn grandskoðaður eftir slátt og hann metinn eftir þjóðlegum stöðlum. Keppnin var jöfn og spennandi en að lokum stóð Guðjón Gestsson frá Hróarsholti uppi sem sigurvegari. Fjölmenni fylgdist með keppninni en að loknum slætti rökuðu knáar kaupakonur í sátur og í lokin sló Kvenfélag Eyrarbakka upp engjakaffi.

Fjölmenn skrúðganga fór um þorpið í morgun en henni lauk í kjötsúpuveislu við Húsið. Fornbílar aka um þorpið og mikið af fólki er á ferli.

Í kvöld verður hlöðuball með Klaufunum en hátíðinni lýkur annað kvöld með fjöldasöng, langeldi og flugeldasýningu við Slippinn.

Fyrri greinÞyrlan sótti veikan mann við Markarfljót
Næsta greinHörð keppni í hástökki