Sleðamaðurinn ekki alvarlega slasaður

Vélsleðamaðurinn sem fór fram af snjóhengju við Hlöðufell í gær er ekki alvarlega slasaður. Hann var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús.

Tilkynning um slysið barst lögreglu klukkan 15:41 í gær en talið var að snjóhengjan hafi verið um fimm metra há. Ekki lá ljóst fyrir í byrjun hve alvarlegt slysið var en leitað var til björgunasveita og Landhelgisgæslunnar sem fóru á staðinn.

Vélsleðamanninum var komið í nærliggjandi fjallaskála þar sem hlúð var að honum þar til þyrla kom og flutti hann á slysadeild Landspítala.

Við skoðun á slysadeild kom í ljós að vélsleðamaðurinn var ekki alvarlega slasaður en hann var með mjög góðan öryggisbúnað og vel búinn í alla staði.

Fyrri greinTveir handteknir vegna líkamsárásar
Næsta greinDagbók lögreglu: Erlendir ferðamenn á pinnanum