Sláturúrgangur flæddi niður Ytri-Rangá

Úrgangur úr kjúklingasláturhúsi Reykjagarðs við Hellu flæddi niður Ytri-Rangá í gær. Veiðimenn segja ána hafa verið óveiðandi, og kalla málið hneyksli.

Það var um klukkan fjögur í gær sem á annan tug útlendinga sem voru að veiðum í ánni tóku eftir því að úrgangur frá Reykjagarði flæddi niður ána.

„Maður sá kjúklingafitu, kjúklingainnyfli, jafnvel klósettpappír fljóta hérna niður ána. Útlendingurinn fékk maríulaxinn skömmu síðar og, eins og vitað er, er hefð að bíta af honum uggann. Hann vildi það ekki,” sagði Guðmundur Atli Ásgeirsson veiðieiðsögumaður í viðtali við fréttastofu RÚV.

Guðmundur segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem svona nokkuð gerist í ánni, þetta hafi oft gerst áður, síðast í fyrradag.

„Þetta er náttúrulega bara skandall, sveitarfélagið er að moka inn peningum á þessari á og að umgangast þessa náttúruperlu og þessa góðu laxveiðiá á þennan hátt er bara skandall,“ segir Guðmundur.

Sigurður Árni Geirsson, framleiðslustjóri Reykjagarðs segir að það sem gerist sé að verktaki komi til þess að tæma fitugildru. „Og hann lendir í vandræðum, þarf að sprauta meira vatni ofan í gildruna til að losa meiri fitu. Á sama tíma er verið að grófskola í sláturhúsinu og það virðist vera sem of mikið vatn hafi farið ofan í gildruna á stuttum tíma sem virðist hafa valdið yfirflæði í veitukerfinu,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að ábyrgð þeirra liggi fyrst og fremst í því að tæma fitugildruna. Og ábyrgð verktakans sé eflaust einhver. Þetta þurfi að kanna nánar. Hann kannast ekki við að þetta hafi gerst áður.

Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sagðist í samtali við fréttastofu RÚV í morgun ekki hafa heyrt af málinu. Hún sagði hins vegar að málið yrði rannsakað í kjölfar þessara upplýsinga.

RÚV greindi frá þessu