Sláturbóla herjar á starfsfólk sláturhúsa

Óvenjumikið hefur verið um það í haust að starfsfólk í sláturhúsum leiti læknis vegna veirusýkingar, sem nefnist sláturbóla.

Þetta segir Arnar Þór Guðmundsson, yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, í viðtali í Fréttablaðinu í dag.

„Sláturbólan tengist sauðkindum og vinnu í sláturhúsum,” segir Arnar. „Þessi veira er í kindunum og fólk fær þetta þegar það vinnur með dauðar skepnur. Veiran er í vessum innan í kindinni.”

Arnar segir að veirusýkingin valdi blöðrum eða sárum, einkum á höndum en geti einnig komið annars staðar á líkama. Oft verði af þessu sársaukafull útbrot. Sýkingin gangi yfir á fjórum til sex vikum.

„Þar sem um veirusýkingu er að ræða er ekki mikil meðferð til við henni, þótt menn hafi verið að prófa sig áfram með ákveðin sýklalyf,” útskýrir Arnar.

Arnar segir að fólk sem vinni í sláturhúsum þekki sláturbóluna vel og kunni að bregðast við henni með umbúnaði.

„Aðalvandamálið væri ef bakteríusýking kæmist ofan í blöðru, sem gerist stundum. Þá þarf að meðhöndla það og halda fólki frá vinnu meðan ígerð er í sárinu. Það þarf stundum að halda fólki frá vinnu eingöngu út af sláturbólunni en sé hún ekki mjög slæm og búið vel um hana, þá getur viðkomandi unnið.”

Arnar undirstrikar að sláturbólan sé ekki hættuleg, smitist ekki milli manna og fari ekki í nautgripi. Möguleiki sé á vægum hita hjá þeim sem fær hana. Einungis sé um að ræða snertismit.