Sláttur hafinn í Landeyjum

Fyrsti sláttur hófst í kvöld hjá Sævari Einarssyni, bónda á Stíflu í Vestur-Landeyjum. Þessi snemmbúni sláttur er reyndar ekki af góðu kominn.

„Þetta er svona smá tilraun hjá okkur. Það er svo mikil aska yfir öllu hérna þannig að við ákváðum að slá af tveimur stykkjum og hreinsa hana í burtu. Með því erum við að vonast til að seinni sláttur verði eitthvað skemmtilegri,“ sagði Sævar í samtali við sunnlenska.is.

„Slægjan er 25-30 cm há en ég veit svosem ekkert með gæðin á henni. Ég held að ég geti nýtt þetta en það þyrlast upp rykmökkurinn þegar maður er að slá og það er mikið öskuryk í þessu,“ segir Sævar sem hefur aldrei hafið slátt svona snemma.

„Ég hef oft byrjað að slá í kringum 10. júní þannig að þetta er ekki nema viku fyrr en venjulega,“ segir Sævar og býst við því ef sprettan verður góð að hann geti náð að slá þessi stykki þrisvar sinnum í sumar.