Sláttur hafinn á Suðurlandi

Sláttur hafinn í Gunnbjarnarholti, 25. maí 2019. Ljósmynd/Arnar Bjarni Eiríksson

Sláttur er hafinn á Suðurlandi en Arnar Bjarni Eiríksson, bóndi í Gunnbjarnarholti, í Skeiða- og Gnúpverjahreppi mundaði sláttuvélina fyrstur manna í dag.

„Ég hef aldrei nokkurn tímann slegið svona snemma. Í venjulegu ári þá er mjög gott að geta byrjað í kringum 10. júní. En ég sá þarna færi á að slá smá montblett og reikna ekki með að halda áfram næstu daga,“ sagði Arnar Bjarni í samtali við sunnlenska.is en hann sló fimm hektara í dag.

„Það skrítna við þetta er að þetta er tvíært rýgresi sem er á þessu túni og ég ætlaði að plægja það upp í vor. Það er ekki venjulegt að það lifi en veturinn var mildur og þegar ég sá hvernig það tók við sér þá tímdi ég ekki að plægja það. Þetta sprettur hratt og ég gæti líklega slegið þetta stykki fjórum til fimm sinnum í sumar.“

Arnar Bjarni bætti því við að lokum að hann búist við að hefja slátt af fullri alvöru eftir um það bil tvær vikur.

Fyrri greinSvanhildur dúxaði í FSu
Næsta greinFyrsti sigur Heiðrúnar Önnu á stórmóti