Slasaður maður sóttur á Fimmvörðuháls

Björgunarsveitir á Fimmvörðuhálsi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Rúnar Steinn Gunnarsson

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út á fjórða tímanum í dag vegna manns á Fimmvörðuhálsi sem er slasaður á fæti.

Nærstaddir heilbrigðisstarfsmenn eru komnir að manninum og hlúa að honum. Á meðan heldur björgunarsveitarfólk akandi upp á hálsinn með frekari búnað til að undirbúa þann slasaða fyrir flutning, verður hann fluttur annað hvort með bíl eða með þyrlu.

Þoka er á slysstað og því óvíst hvor leiðin verður farin.

UPPFÆRT 18:30: Rétt fyrir sex kom fyrsti hópur björgunarfólks á vettvang ásamt lækni. Sá hópur hafði keyrt langleiðina upp á Fimmvörðuháls en kom gangandi um tveggja kílómetra leið að slasaða manninum. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti hóp björgunarfólks í Fljótshlíð og lenti á Morinsheiði og eru fólkið á leiðinni á vettvang ásamt þyrlulækni fótgangangi.

Næstu skref eru að verkjastilla manninn og skipuleggja flutninga á honum, annað hvort að þyrlunni eða að sexhjólunum sem eru sunnar við staðinn þar sem maðurinn er.

Fyrri greinÖlvaðir og örþreyttir eiga ekkert erindi út í umferðina
Næsta grein„Hamingjan við hafið“ hefst í dag